Dagskrá deildarsýningar 14. júlí 2018

Nú er skráningu á deildarsýningu Retrieverdeildarinnar lokið og eru 62 hundar skráðir. Dómari sýningarinnar er Claudia Berchtold frá Austurríki, en hún ræktar Flat-coated Retriever. Sýningin er haldin á tjaldsvæðinu við Brautarholt á Skeiðum og byrjar kl. 10:00 á laugardagsmorguninn 14. júlí. Nokkrar hagnýtar upplýsingar varðandi sýninguna:

  • Sýninganúmer verða afhent á staðnum, gera má ráð fyrir að geta nálgast þau frá kl. 09:30.
  • Áætluð dagskrá er hér að neðan, gera má ráð fyrir um 4 mínútum á hvern hund, það er á ábyrgð sýnenda að vera kominn á réttum tíma í hring.
  • Á þessari sýningu eru veitt íslensk meistarastig, íslensk ungliða meistarastig og íslensk öldungameistarastig.
  • Boðið verður upp á að sýna ræktunarhópa, afkvæmahópa og pör. Tilkynna þarf til hringstjóra að sýnandi hyggist taka þátt í þessum liðum áður en dómi er full lokið í tegundinni.
  • Hægt verður að kaupa HRFÍ rósettur á staðnum, þ.e. rósettur fyrir meistarastigin, heiðursverðlauna rósettur og meistaraefnisrósettur. Meistarastigs rósettur kosta 1500 krónur stykkið og hinar 1000 krónur stykkið, við erum ekki með posa þannig að kaupendur þurfa að hafa með sér peninga.
  • Deildin mun bjóða öllum þátttakendum í deildarviðburðinum upp á pylsur í hádegishlénu.
  • Eigendur hunda bera alfarið ábyrgð á hundum sínum og allir hundar skulu vera í taumi.
  • Veðurspáin er eins og undanfarið rigning því getur verið gott að hafa með sér tjald til að bíða í meðan dómur annarra fer fram, ekki tjalda samt alveg við hringinn gott er að hafa tjöldin ca 2 metra frá hring svo að hægt sé að ganga um svæðið
  • Rennandi vatn er á staðnum svo hægt er að brynna hundunum.
  • Salerni er á staðnum.

Að lokum óskum við ykkur öllum góðrar skemmtunar og góðs gengis og munum að við förum alltaf heim með besta hundinn hvaða dóm sem hann fær.