Deildarviðburður Retrieverdeildar 2017

Að venju er vandað til vals á dómurum deildarviðburðar og er sýningadómarinn Olga Teslenko frá Rússlandi sannur Retrieverunnandi og hefur ræktað bæði Labrador og Golden. Hún hefur verið mjög virk í Rússneska Retrieverklúbbnum og sér þar um ýmsa viðburði, fyrir utan að vera sérfræðidómari á Retrievertegundirnar. Þessi sýning verður að venju mjög skemmtileg og munum við velja (fyrir utan hefðbundna flokka um bestu hunda) besta ungliða sýningar. Að sjálfsögðu eru í boði íslensk meistarastig, íslensk ungliðameistarastig og íslensk öldungameistarastig sem telja til titla. Stemmningin á deildarsýningunum okkar hefur alltaf verið mjög afslöppuð og skemmtileg og því tilvalið fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu skref í sýningahringnum að taka þátt (fyrir utan náttúrulega alla sem hafa gaman að sýningum). Á deildarviðburðinum er einnig keppt um hinn glæsilega Hólabergsbikar, en hann er veittur þeim hundi sem samanlagt fær flest stig eftir veiðipróf sunnudagsins og sýningu helgarinnar (einungis þeir sem taka þátt í hvorutveggja koma til greina). Á laugardagskvöldinu mun sýninganefnd/göngu- og skemmtinefnd standa fyrir sameiginlegri máltíð sem alltaf hefur verið mjög vinsæl og er verði fyrir þá máltíð mjög stillt í hóf (skráning er hjá Elsu Hlín, sjá Facebook síðu deildarinnar). Skráning í veiðiprófin hefst á morgun 21. júni , og enn eru nokkur pláss laus á sýninguna, en sýningin er fyrir alla Retrieverhunda frá 3. mánaða aldri. Skráningu á sýninguna líkur þriðjudaginn 27. júní, því er um að gera að skrá sem fyrst en skráning fer fram á skrifstofu HRFÍ. Hlökkum til að sjá sem allra flesta í þessum stærsta og skemmtilegasta viðburði deildarinnar !!